Innlent

Settu á svið umferðarslys í Hvalfjarðargöngum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Umfangsmikil æfing fór fram í Hvalfjarðargöngum í nótt.
Umfangsmikil æfing fór fram í Hvalfjarðargöngum í nótt. mynd/almannavarnir
Viðamikil almannavarnaæfing fór fram í Hvalfjarðargöngum í nótt þar sem sviðsettur var árekstur nokkurra bíla og eldsvoði í kjölfarið. Fjöldi slökkviliðsmanna tók þátt í æfingunni sem og þyrla Landhelgisgæslunnar en hún selflutti björgunarmenn eftir þörfum.

Annars vegar var sett á svið umferðarslys þar sem þrír bílar höfðu lent saman og voru um tíu manns í bílunum. Margir voru slasaðir og þurftu á margvíslegri aðstoð að halda. Reykvélar voru notaðar til þess að búa til reyk og líkja eftir því að lítill eldur hefði kviknað. Þá var fólk klippt út úr bílflökunum og það flutt áleiðis á sjúkrahús á Akranesi eða í Reykjavík, en sumir voru sendir suður í þyrlunni.

Hins vegar var gámi með eldsmat komið fyrir inni í göngunum og kveiktur eldur. Slík æfing gefur viðbragðsaðilum tækifæri til þess að sjá og upplifa hvernig heitur reykur hagar sér við þessar aðstæður en reykur úr reykvél hagar sér á annan hátt.

Æfingin þykir hafa tekist vel, en hún var hluti af undirbúningi vegna tilkomu Norðfjarðarganga og Vaðlaheiðarganga. Hvalfjarðargöng eru lokuð að næturlagi þessa vikuna vegna viðhalds og hreinsunar.

Myndir og myndskeið af æfingunni má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×