Þetta staðfestir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.
„Það er oft svona þegar stór fjölmiðlamál eru annars vegar. Við höfðum fengið ábendingar þess efnis að aðrir fangar væru að hringja, til dæmis í blaðamenn, og tala digurbarkalega um hvernig þeir ætluðu að taka á móti Thomasi að þeir ætluðu að gera honum eitthvað. Þannig að við héldum þennan fund til öryggis, þó að svona mál leysist yfirleitt af sjálfu sér,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt heimildum innan fangelsisins heldur Thomas sér nokkuð til hlés, nýtir ekki alla þá útivist sem hann á rétt á og á ekki í samskiptum við aðra fanga, komist hann hjá því. Samkvæmt sömu heimildum situr Thomas á gangi ásamt einum öðrum fanga.
Guðmundur, sem sjálfur afplánar á Kvíabryggju, segist vita til þess að Thomas hafi kosið að vera mikið einn. „En allir fangar þurfa að umgangast fólk eitthvað. Það þarf að versla og svo framvegis. Þú hittir alltaf eitthvað af fólki. Fangelsið er lítið samfélag og menn þurfa að búa saman.“
Fréttablaðið greindi frá því í janúar að afplánunarfangar á Litla-Hrauni hefðu fylgst afar náið með fréttum af hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Stemningin innan fangelsisins hefði bent til þess að ekki væri hægt að vista manninn þar. Mikillar reiði hefði gætt meðal íslensku fanganna á Litla-Hrauni. Fangelsismálayfirvöld hafi ekki þorað að taka áhættu með öryggi mannsins og því hafi hann verið vistaður á Hólmsheiði þar sem húsnæðið býður upp á frekari deildaskiptingu og öðruvísi eftirlit.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu