Erlent

Hollande styður Macron

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. Vísir/AFP
Leiðtogar hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka í Frakklandi keppast nú við að lýsa yfir stuðningi við miðjumanninn Emannuel Macron sem keppa mun um forsetaembættið við Marine Le Pen, frambjóðanda Franska þjóðarflokksins, í seinni umferð kosninganna. BBC greinir frá.

Francois Hollande, núverandi forseti Frakklands, ávarpaði þjóð sína í dag þar sem hann sagði að öfgasinnuð hægri stefna Le Pen myndi ógna samstarfi Evrópuríkja og sundra Frakklandi. Standandi frammi fyrir slíkri hættu gæti hann ekki annað en kosið Macron í síðari umferðinni.

Francois Fillon, frambjóðandi hægri manna sem var þriðji í fyrri umferðinni, hefur þegar lýst yfir stuðningi við Macron og segir hann að fari Le Pen með sigur muni það einungis færa frönsku þjóðinni „óhamingju og óeiningu.“

Vinstrimaðurinn Jean-Luc Mélenchon, sem varð í fjórða sæti með 19,6 prósent atkvæða hefur þó ekki sagt hvorn frambjóðandann hann muni styðja en hann gagnrýndi Macron harðlega í kosningabaráttunni.

Þá hefur Benoit Hamon, frambjóðandi sósíalista, einnig lýst yfir stuðningi við Macron auk þess sem að forsætisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, hefur gert slíkt hið sama.

Síðari umferð forsetakosninganna verður haldin 7. maí.


Tengdar fréttir

Le Pen og félagar stilla miðið á Macron

Miðjumaðurinn Emmanuel Macron er hrokafullur og enginn föðurlandssvinur ef marka má orð eins helsta ráðgjafa Marine Le Pen. Kosningabaráttan fyrir seinni umferð frönsku forsetakosninganna er strax hafinn og verður hún hörð af ummælum ráðgjafa Le Pen að dæma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×