Innlent

Telur ekki að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna muni hafa áhrif á dreifingu ferðamanna um landið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. Vísir/Ernir
Benedikt Jóhannesson, fjármálráðherra, segist ekki sjá að boðuð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna muni hafa þau áhrif að dreifa ferðamönnum meira um landið en nú gerist en það hefur lengi verið bæði markmið stjórnvalda og aðila í ferðaþjónustunni að fá ferðamenn til að fara víðar um landið. Þessi skoðun ráðherrans kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem hann kvaðst jafnframt eiga erfitt með að skilja hvernig hækkunin geti haft áhrif á færri pantanir hjá ferðaþjónustuaðilum nú.

Eins og ítrekað hefur komið fram er margir innan ferðaþjónustunnar afar ósáttir við boðaða skattahækkun en í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ríkisstjórnar er kveðið á um að ferðaþjónustan færist úr neðra þrepi virðisaukaskatts í það efra þann 1. júlí 2018. Þrepið er nú 24 prósent en mun þann 1. janúar 2019 lækka í 22,5 prósent samkvæmt fjármálaáætlun.

Tryggja megi landsbyggðinni aukinn hlut með dreifingu ferðamanna

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Benedikt út í hækkunina á þingi í dag. Hafði hann meðal annars orð á því að andstaða væri við hækkunina á meðal almennings og að afpantanir í ferðaþjónustu væru farnar að berast. Þingmaðurinn spurði svo ráðherrann hvort hann teldi að hækkunin myndi stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið og þannig tryggja landsbyggðinni aukinn hlut.

„Samhliða því að boðuð var hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna var rætt um, m.a. af hæstv. ráðherra, að fara ætti í svokallaðar mótvægisaðgerðir. Nú styttist í þinginu og við þurfum að fara að greiða atkvæði um fjármálaáætlunina og þessa tillögu. Því spyr ég: Í hverju felast þessar mótvægisaðgerðir? Hafa verið gerðar greiningar á því? Það var gagnrýnt að engar eða litlar greiningar hefðu verið gerðar á því þegar hækkunin var lögð á. Hafa verið gerðar greiningar á því í hverju mótvægisaðgerðirnar þurfa að felast, hversu háar þær eru og þá hversu mikill hluti af þeirri tekjuaukningu sem ríkisstjórnin ætlar sér með þessu fer til baka í mótvægisaðgerðir?“

Fjármálaráðherra svaraði því til að hann væri í fyrsta lagi ósammála þeirri skoðun þingmannsins að almenningur hafni virðisaukaskatti á ferðaþjónustu.

„Ég held að það sé almennur stuðningur við það að hér sé skattkerfið sem einfaldast, allar greinar séu í sama skattumhverfi og eðlilegt að sú grein sem stærst er sé í sama skattumhverfi og aðrar greinar. Það er í samræmi við réttlætiskennd flests fólks,“ sagði Benedikt.

Skipa hóp vegna mótvægisaðgerðanna

Þá sagði hann varðandi dreifingu ferðamanna um landið að hann teldi ekki að hækkun virðisaukaskatts myndi hafa áhrif á hana. Varðandi mótvægisaðgerðirnar sagði Benedikt að hann hefði fundað með ferðamálaráðherra og forystumönnum í ferðaþjónustu vegna þeirra.

„Bæði á landsvísu og svo hef ég hitt sérstaklega forystumenn í ferðaþjónustu á Austurlandi þar sem við höfum rætt mögulegar aðgerðir í markaðsmálum, kynningarmálum, uppbyggingarmálum á einstökum stöðum og svo framvegis, sem ég tel óháðar þessari breytingu. Það er merkilegt að heyra hve margir telja að þessi hugsanlega breyting í framtíðinni hafi haft áhrif í þá veru að nú séu minni pantanir, sem ég á mjög erfitt með að skilja. En þar hafa verið lagðar fram tillögur sem hópur sem ferðamálaráðherra og ég munum skipa á næstu dögum fer yfir,“ sagði fjármálaráðherra.

Sigurður Ingi benti ráðherranum þá að ferðaþjónustuaðilar víða um land hefðu hafnað hugmyndum um hækkun virðisaukaskattsins.

„Meðal annars vegna skorts á samráði, greiningum og að menn hafi ekki hugmynd um hvaða afleiðingar þessi hækkun hafi á greinina í heild sinni, ekki síst aðilar úti á landi,“ sagði Sigurður og kallaði svo eftir skýru svari um það í hverju boðaðar mótvægisaðgerðir munu felast.

Mjög eðlilegt að ferðaþjónustan borgi sinn skerf

„Og af því að við þurfum að fara að greiða atkvæði innan tíðar um fjármálaáætlun er auðvitað ekki nóg að á næstu dögum eða vikum verði settur á starfshópur sem á að fjalla um markaðsátak til þess að tryggja ferðamenn út á land. Það er alveg rétt, það þarf að gera það óháð því hvort hér sé hækkaður virðisaukaskattur eða ekki. En það hljóta að þurfa að liggja fyrir skýrar mótvægisaðgerðir, byggðar á greiningum sem fjármálaráðuneytið hefur lagt til vegna hækkunar á virðisaukaskattinum.“

Benedikt svaraði því ekki nánar en sagði þingmanninn hins vegar hafa ráðist ómaklega að ferðaþjónustunni með orðum sínum.

 

„Mér finnst mjög ómaklegt hvernig hvæstvirtur þingmaður ræðst að ferðaþjónustunni og sakar hana um að ætla sér að fara að svíkja undan skatti vegna þess að hér verði fyrirkomulagi breytt. Ég held að í ferðaþjónustu sé almennt heiðarlegt fólk sem vill standa skil á þeim sköttum sem á greinina eru lagðar. Þegar farið var í þessar aðgerðir voru gerðar ítarlegar greiningar. Ég vil benda hæstvirtum þingmanni á grein sem ég skrifaði í Kjarnann núna um helgina, langa og ítarlega grein, um virðisaukaskattsmálið. Hana má líka lesa á vef fjármálaráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram að ferðaþjónustan, sem stendur fyrir 8 prósent af vergri landsframleiðslu, borgaði ekki nema um 3 prósent af virðisaukaskatti fyrir árið í fyrra. Ég held að það sé mjög eðlilegt að hún borgi sinn skerf, það er um 8 prósent, og það mun gerast eftir breytinguna,“ sagði fjármálaráðherra í umræðum á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×