Skoðun

Iceland er okkar!

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Yfirgangur bresku verslanakeðjunnar Iceland skal stöðvaður. Nýlega var mál stjórnvalda gegn bresku verslanakeðjunni Iceland kynnt af fulltrúum Íslands á fundi nefndar Alþjóðahugverkastofnunarinnar um vörumerki, hönnun og landfræðilegar tilvísanir. Verslanakeðjan hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu.

Forsaga málsins er sú að í nóvember sl. greip utanríkisráðuneytið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslanakeðjunni Iceland vegna óbilgirni fyrirtækisins.

Breska fyrirtækið hefur einkarétt á nafninu Iceland í öllum löndum Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt þar sem það þykir of víðtækt og kemur í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.

Þetta mál snýst um grundvallaratriði, það er ólíðandi að einkafyrirtæki eigi einkarétt á orðmerkinu „Iceland“ í öllum löndum Evrópusambandsins. Það kemur í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og stofnanir geti skráð vöru sína með tilvísun í upprunalandið Ísland. Málið hefur alþjóðlega skírskotun vegna áhrifa á vöru- og þjónustuviðskipti og miklir hagsmunir eru í húfi.

Verslanakeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið Iceland sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslanakeðjunnar hafa m.a. bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn. Þannig hefur verslanakeðjan beitt sér gegn íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum.

Það er sanngjarnt að íslenskir aðilar geti vísað til upprunalandsins ef þeir kjósa svo í markaðsstarfi sínu erlendis. Ísland hefur jákvæða ímynd í hugum neytenda. Tilraunir og viðleitni stjórnvalda á sínum tíma til að semja um sanngjarna lausn á vandanum skiluðu engu. Nýlegum aðgerðum stjórnvalda ber að fagna. Brýnt er að íslensk stjórnvöld gefi hvergi eftir, þannig að erlendir aðilar á borð við verslanakeðjuna Iceland geti ekki einokað nafnið Iceland eða aðrar erlendar tilvísanir til Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×