Erlent

Trump mun kvarta formlega yfir minnisblaðaleka Comey

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
James Comey.
James Comey. Vísir/AFP
Lögfræðingur Donald Trump mun leggja fram formlega kvörtun til dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sem og dómsmálanefndar Bandaríkjaþings, vegna þess að James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, lét leka minnisblöðum um fundi hans og Trump til fjölmiðla.

CNN greinir frá. Kvörtunin mun snúa að því að Comey hafi látið vini sínum í té minnisblöðin og síðan beðið hann um að leka efni þeirra í fjölmiðla. Í vitnaleiðslu Comey fyrir njósnamálanefnd Bandaríkjaþings kom fram að forstjórinn fyrrverandi hafi ákveðið að leka minnisblöðunum eftir að Trump gaf til kynna á Twitter að til væru upptökur af fundum þeirra.

Comey lét vin sinn, lögfræðiprófessorinn Daniel Richman, fá eintök af minnisblöðunum og kom hann þeim áleiðis til fjölmiðla. Frétt New York Times um efni minnisblaðanna, þar sem meðal annars kom fram að Trump hafði farið fram á það við Comey að hann myndi láta af rannsókn FBI á tengslum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa við Rússland, vakti mikla athygli.

Í vitnisburði Comey í gær kom meðal annars fram að hann sá sig knúinn til þess að rita minnisblöð eftir fundi hans með Trump. Taldi hann að mikilvægt væri fyrir sig að geta gripið til þeirra síðar meir þar sem hann taldi líklegt að Trump myndi reyna að ljúga til um efni fundanna.

Þá kom einnig fram að Comey taldi ekki þörf á því að rita sérstök minnisblöð þegar hann hitti forvera Trump í starfi.

Þar sem Comey er ekki lengur starfsmaður á vegum ríkisins er þó talið ólíklegt að kvörtunin muni hafa mikil áhrif. Komi til þess að dómsmálaráðuneytið komist að því að Comey hafi brotið af sér í starfi getur ráðuneytið í mesta lagi skráð brotið í starfsmannaskrá Comey sem skoðuð verður sæki hann um starf á vegum ráðuneytisins.


Tengdar fréttir

Trump tjáir sig um vitnisburð Comey eftir langa þögn

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stóðst freistinguna og tísti ekkert á meðan James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, svaraði spurningum njósnamálanefndar Bandaríkjaþings í gær um samskipti hans við Trump. Hann er þó mættur aftur á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×