Innlent

Ferðamaður frá Íslandi gripinn með uppstoppaðan lunda í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bannað er að flytja farfugla eins og lunda til Bandaríkjanna.
Bannað er að flytja farfugla eins og lunda til Bandaríkjanna. Fréttablaðið/Heiða
Tollverðir á flugvellinum í Baltimore tóku uppstoppaðan lunda af ferðamanni sem kom frá Íslandi nýlega. Ferðamaðurinn hafði ekki gert sér grein fyrir því að bannað er að flytja inn farfugla eins og lunda til Bandaríkjanna.

Lundinn var í kassa þegar maðurinn skýrði tollvörðum frá því að hann væri að flytja fuglinn inn 2. júní samkvæmt frétt Baltimore Sun. Alríkislög um vernd farfugla frá 1918 banna slíkan innflutning og því var lundinn tekinn af ferðamanninum. Honum var þó ekki gerð nein refsing þar sem hann gaf lundann sjálfur upp við tollverði.

Blaðið segir að tollverðir á Baltimore-Washington International Thurgood Marshall-flugvellinum geri reglulega bannaða kjötvöru og framandi ávexti upptæka.

„Við sjáum mikið af þessum hlutum yfirleitt en það er afar óvenjulegt fyrir okkur að sjá uppstoppaðan lunda í fullri stærð,“ segir Steve Sapp, talsmaður tollgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×