Körfubolti

Jackson að hætta hjá Knicks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Phil Jackson náði mögnuðum árangri með LA Lakers og Chicago Bulls á sínum tíma.
Phil Jackson náði mögnuðum árangri með LA Lakers og Chicago Bulls á sínum tíma. Vísir/Getty
Phil Jackson vann ellefu meistaratitla sem þjálfari í NBA-deildinni en hann er nú á útleið hjá New York Knicks þar sem hann hefur verið í stöðu forseta undanfarin þrjú ár.

Eigandi félagsins, James Dolan, og Jackson munu ekki hafa verið sammála um framtíð framherjans Carmelo Anthony. Jackson vildi losna við hann en Dolan vildi ekki kaupa út samning hans.

Anthony er með klásúlu í samningi sínum sem gerir félaginu ókleift að skipta honum til annars félags. Hann á enn tvö ár og 54 milljónir dollara eftir af samningi sínum við Knicks.

Fram kemur í frétt ESPN um málið að Jackson hafi ekki átt lengur samleið með sumum leikmönnum og þjálfurum félagsins. Þá hafi ríkt óánægja með að hinn lettneski Kristaps Porzingis sé mögulega á leið frá félaginu.

Knicks hefur misst af úrslitakeppni NBA-deildarinnar síðustu fjögur ár og vann aðeins 31 leik á síðasta tímabili. Knicks tapaði minnst 50 leikjum hvert tímabil sem Jackson var við stjórnvölinn.

Jackson á enn tvö ár eftir af samningi sínum við Knicks búist er við því að tilkynnt verði í dag að hann sé hættur hjá félaginu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×