Erlent

Trump í Póllandi: Spyr hvort Vesturlönd búi yfir viljanum til að lifa af

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með Andrzej Duda Póllandsforseta í morgun.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með Andrzej Duda Póllandsforseta í morgun. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun segja að framtíð vestrænnar siðmenningar sé í húfi í ræðu sinni sem hann hyggst flytja í pólsku höfuðborginni Varsjá síðar í dag.

Brot úr ræðunni hafa þegar verið send á fjölmiðla, en hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu.

Trump mun þar lýsa Póllandi sem landi sem sé reiðubúið að verja siðmenninguna en forsetinn mun einnig vara við þeirri ógn sem stafar af hryðjuverka- og öfgamönnum. Ríkisstjórn Póllands deilir viðhorfum Trump þegar kemur að innflytjendamálum og fullveldi.

Trump kom til Póllands í gærkvöldi en að heimsókn lokinni fer hann á leiðtogafund G20-ríkjanna sem fram fer í Hamborg í Þýskalandi um helgina.

„Reynsla Póllands minnir okkur á að það hvílir ekki bara á þeim leiðum sem í boði eru að verja Vestrið, heldur einnig á vilja Vesturlandabúa að verða yfirsterkari,“ segir í ræðunni „Grundvallarspurning okkar tíma er hvort Vesturlönd búi yfir viljanum til að lifa af.“

Trump mun flytja ræðuna við minnisvarða um Varsjár-uppreisnina árið 1944 á Krasinski-torgi. Þar mun hann einnig ítreka stuðning Bandaríkjanna við ríki Austur-Evrópu.

Trump mun eiga tvíhliða fund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Hamborg á morgun, en þetta verður í fyrsta sinn sem þeir funda saman tveir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×