Íslenski boltinn

Ana Victoria: Þessi tilfinning er alltaf föst í hausnum á manni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ana Victoria í leik gegn Breiðabliki fyrr í sumar.
Ana Victoria í leik gegn Breiðabliki fyrr í sumar. vísir/anton
Stjarnan mætir Val í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna 13. ágúst næstkomandi. Sigurvegarinn mætir svo annað hvort ÍBV eða Grindavík í úrslitaleiknum 8. september.

„Við erum mjög spenntar. Þetta verður mjög spennandi leikur. Við þekkjum þær vel og þær geta sagt það sama um okkur. Þetta eru alltaf hörkuleikir,“ sagði Ana Victoria Cate, leikmaður Stjörnunnar, eftir bikardráttinn í dag.

Ana, sem er frá Níkaragva, hefur leikið hér á landi undanfarin fjögur ár, fyrst með FH og svo Stjörnunni. Hún varð bikarmeistari með Garðabæjarfélaginu fyrir tveimur árum og vill endurtaka þann leik í ár.

„Tilfinningin að vera hér á Laugardalsvelli og vinna titla er alltaf föst í hausnum á manni,“ sagði Ana sem hefur alls leiki 11 leiki í deild og bikar í sumar og skorað fjögur mörk.

Stjarnan situr í 2. sæti Pepsi-deildar kvenna, sex stigum á eftir toppliði Þórs/KA, þegar sjö umferðir eru eftir.

„Gengið hefur verið upp og niður. Við höfum séð hvernig okkur langar að spila, eins og gegn Þór/KA og KR, og síðan hvernig við viljum ekki spila,“ sagði Ana.

Nú er hafið mánaðarfrí vegna EM kvenna í Hollandi. Ana segir skrítið að fá nánast annað undirbúningstímabil inni á miðju tímabili.

„Við þurfum að nýta það vel og styrkja okkur. Við eigum mjög þungt prógramm í ágúst og þurfum að vera tilbúnar fyrir það,“ sagði Ana að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×