Íslenski boltinn

Agla María með þrennu í stórsigri Stjörnunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agla María átti frábæran leik.
Agla María átti frábæran leik. vísir/ernir
Agla María Albertsdóttir, yngsti leikmaðurinn í íslenska EM-hópnum, skoraði þrennu þegar Stjarnan rúllaði yfir KR, 1-5, í fyrsta leik 11. umferðar Pepsi-deildar kvenna í dag.

Stjarnan hefur unnið síðustu þrjá leiki sína með markatölunni 11-1 og er komin upp í 2. sæti deildarinnar. Stjarnan er þremur stigum á eftir toppliði Þórs/KA.

KR hefur aftur á móti tapað þremur leikjum í röð með markatölunni 1-12. KR-ingar eru í 8. sæti deildarinnar með sex stig, tveimur stigum frá fallsæti.

KR komst yfir á 31. mínútu þegar Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði með skoti yfir illa staðsettan markvörð Stjörnunnar, Gemmu Fay.

Aðeins mínútu síðar jafnaði Stjarnan metin í 1-1 með sjálfsmarki og þannig var staðan í hálfleik.

Agla María kom Stjörnunni yfir á 54. mínútu og átta mínútum síðar lagði hún upp mark fyrir Katrínu sem skoraði sitt tíunda mark í sumar.

Agla María skoraði sitt annað mark á 82. mínútu og hún fullkomnaði svo þrennuna tveimur mínútum síðar. Frábær leikur hjá Öglu Maríu sem skoraði þrennu og gaf tvær stoðsendingar.

Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir EM í Hollandi. Stjarnan á þrjá fulltrúa í EM-hópnum en KR einn.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×