Erlent

Musk dregur úr væntingum varðandi nýja eldflaug

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk.
Elon Musk. Vísir/EPA
Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri SpaceX, sagði í gær að ólíklegt væri að ný eldflaug fyrirtækisins kæmist á sporbraut í fyrstu tilraun. Starfsmenn SpaceX hafa unnið að þróun Falcon Heavy eldflaugarinnar sem á að vera sú kraftmesta í heiminum og á að geta flutt 54 tonn á sporbraut um jörðu.

Musk sagði þó að þróun eldflaugarinnar, sem býr yfir 27 hreyflum, hefði reynst mun erfiðari en útlit var fyrir upprunalega. Falcon Heavy er í raun þrjár Falcon 9 eldflaugar festar saman en mikill titringur hefur reynst eldflauginni erfiður.

Til stendur að framkvæma fyrsta tilraunaskot Falcon Heavy í lok ársins.

Samkvæmt frétt AFP ræddi Musk ýmislegt fleira á ráðstefnu varðandi Alþjóðlegu geimstöðina í gær. Þar á meðal ræddi hann mikilvægi þess að koma upp bækistöð á tunglinu til að kveikja aftur áhuga á geimferðum meðal jarðarbúa.

Markmið Musk er þó að koma mönnum til Mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×