Skoðun

Ó Reykjavík, ó Reykjavík

Óttar Guðmundsson skrifar
Berlínarmúrinn féll haustið 1989 með brauki og bramli. Á næstu árum breyttist Berlín í stórt byggingasvæði. Gulir kranar spruttu upp úr jörðinni eins og gorkúlur á svæðum þar sem áður stóðu gaddavírsgirðingar og skriðdrekagildrur. Borgin var endurbyggð 45 árum eftir að styrjöldinni lauk.

Embættismenn Reykjavíkur­borgar hafa um árabil barist einarðlega gegn öllum breytingum. Fyrir einhverjum árum sótti ég um leyfi til að breyta útliti húss. Teikningarnar velktust um í borgarkerfinu eins og vegalausir túristar frá einu skrifborði til annars. Menn sögðu að útlit hússins félli ekki nægilega vel að gamalli götumynd, þakhallinn væri ekki réttur eða gluggarnir ekki nógu stórir. Ég fékk þá tilfinningu að heill her samviskusamra embættismanna gerði ekkert annað en að liggja yfir þessum teikningum með hallamál og reiknistokk.

Nú eru aðrir tímar í Reykjavík og miðborgin minnir einna helst á Berlín á umbrotaárunum eftir 1990. Kranarnir eru orðnir jafnmargir og hraðahindranir á götunum. Gömul hús eru miskunnarlaust rifin til að rýma fyrir öðrum nýrri. Nú skiptir heildarmynd einstakra gatna engu máli og verktakar og hóteleigendur hafa tekið öll völd. Glerrammi er byggður utan um gamalt hús við Laugaveginn. Keimlíkar hótelbyggingar rísa af grunni úti um alla borg byggðar úr legókubbum. Borgin er að skipta um svip. Verið er að breyta miðborginni í lítið hótelþorp þar sem túristar geta skeggrætt málin hver við annan án þess að eiga á hættu að rekast á heimamenn. Næsta skref er að byggja risastórt Parísarhjól í tjörninni og rífa Iðnó og nærliggjandi hús. Borgaryfirvöld þurftu ekki heimsstyrjöld með tilheyrandi sprengjuárásum til að eyðileggja borgina.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×