Erlent

Samstarfsmaður Trump bað Pútín um aðstoð

Kjartan Kjartansson skrifar
Michael Cohen sendi aðstoðarmanni Pútín póst með ósk um aðstoð í fyrra.
Michael Cohen sendi aðstoðarmanni Pútín póst með ósk um aðstoð í fyrra. Vísir/AFP
Einn framkvæmdastjóra viðskiptaveldis Donalds Trump reyndi að tryggja fasteignafyrirtæki hans aðstoð Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, í fyrra á sama tíma og Trump var í framboði til forseta Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í gögnum sem voru afhent Bandaríkjaþingi í gær og Washington Post segir frá. Michael Cohen, einn helsti viðskiptaráðgjafi Trump, sendi talsmanni Pútín tölvupóst þar sem hann óskaði eftir aðstoð við að koma byggingaráformum í Moskvu sem voru á ís aftur af stað í janúar í fyrra.

„Þar sem þetta verkefni er of mikilvægt óska ég hér með eftir aðstoð þinni. Ég bið virðingarfyllst um að einhver, helst þú, hafir samband svo ég geti rætt smáatriðin og einnig komið á fundum á milli viðeigandi einstaklinga. Með fyrir fram þökkum og ég hlakka til að heyra í þér fljótt,“ skrifaði Cohen til Dmitrí Peskov, náins bandamanns Pútín.

Trump og Pútín hittust á fundi G20-ríkjanna í sumar. Pútín er sagður hafa hjálpað Trump í kosningabaráttunni í fyrra.Vísir/AFP
Fékk ekkert svar

Washington Post segir að þetta séu skýrustu samskipti náinna bandamanna Trump og Pútín í kosningabaráttunni sem komið hafi í ljós fram að þessu.

Sérstakur rannsakandi dómsmálráðuneytisins rannsakar nú hvort að forsetaframboð Trump hafi átt samráð við rússnesk stjórnvöld.

Cohen, sem var varaforseti viðskiptaveldis Trump, sagði rannsakendum Bandaríkjaþings í gær að hann minntist þess ekki að hafa fengið svar frá Peskov eða að hafa haft frekari samskipti við rússneska embættismenn.

Tölvupósturinn sem hann sendi á Peskov virðist einnig hafa verið sendur á almennt póstfang stjórnvalda í Kreml.

Neitar að samskiptin sýni fram á samráð

Lögmaður Trump segir að hann hafi ekkert vitað af skeytasendingum Cohen. Það að Cohen hafi ekki fengið svar staðfesti að ekkert samráð hafi átt sér stað.

Byggingaráformin snerust um að reisa Trump-turn í Moskvu. Hætt var við verkefnið í janúar í fyrra þar sem ekki fengust tilskilin leyfi fyrir framkvæmdinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×