Skoðun

Traust á fjármálakerfinu og endurskoðun peningastefnu

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Áskoranir íslenskrar hagstjórnar eru margvíslegar og hverfa ekki þótt vel ári. Það er erfitt að hafa áhrif á ýmsa þætti hagstjórnar hér á landi, til að mynda hversu smátt hagkerfið okkar er eða að útflutningurinn er að mestu byggður á náttúruauðlindum og því sveiflukenndari en ella. Hins vegar eru ákveðin verkefni sem stefnumótandi aðilar hafa á sínu valdi sem mikilvægt er að ráðast í til að styrkja umgjörð hagkerfisins og viðnámsþrótt þess. Annars vegar að efla traust á fjármálakerfinu og hins vegar endurskoðun peningastefnunnar. Til að stefnumótunin sé farsæl, þá þarf að tvinna þessa tvo þræði saman.

Sameina þarf fjármálaeftirlit 

Um áratug fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu var starfsemi fjármálaeftirlits og seðlabanka aðskilin í mörgum ríkjum, m.a. vegna þess að skynsamlegt þótti að aðskilja eftir­lit með öryggi innstæðueigenda og fjármálastöðugleika. Bankaeftirlitið var aðskilið Seðlabanka Íslands árið 1999 og Fjármálaeftirlitið stofnað. Í fjármálakreppunni komu fram miklir vankantar á þessari útfærslu, þar sem heildarsýn á áhættuþætti fjármálakerfisins skorti hjá Seðlabankanum sem lánveitanda til þrauta­vara.

Fram hafa komið sterk rök hjá sérfræðingum á þessu sviði í þá veru að bankaeftirlit eigi heima hjá seðlabönkum. Þróunin hefur verið sú hjá þeim ríkjum sem lentu í miklum erfiðleikum í fjármálakreppunni að þau hafa verið að veita seðlabönkum auknar heimildir á sviði þjóðhagsvarúðar og má nefna Holland og Írland. Sum ríki, líkt og Bretland, hafa sameinað eftirlit með fjárhagsstöðu lánastofnana á nýjan leik innan Englandsbanka. Það er brýnt að fara gaumgæfilega ofan í saumana á því hver ávinningurinn af sameinuðu fjármálaeftirliti á Íslandi sé.

Skortir skýrt umboð

Mikil umræða hefur lengi verið á Íslandi um gjaldmiðlamál og tilfinningalegt samband þjóðarinnar við krónuna er oft lævi blandið. Stundum mætti halda að hún væri upphaf og endir alls. Það er hins vegar ekki svo, því gjaldmiðillinn er fremur eins og hitamælir hagkerfisins. Ef hagstjórnin er styrk og framsýn, þá má draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði. Það gefur augaleið að það er meiri áskorun í litlu opnu hagkerfi, en ef samspil peningastefnu og ríkisfjármála er rétt og regluverk á fjármálamarkaði skilvirkt, þá er hægt að ná árangri.

Til að auka traust og trúverðugleika, þá þarf að halda áfram að styrkja umgjörð peningastefnunnar. Ráðist hefur verið í margar aðgerðir á undan­förum misserum. Meðal annars að innleiða stýritæki til að tempra fjármagnsinnstreymi og breyta reglum um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð bankanna. Hins vegar þarf að horfa til fleiri hagstjórnartækja en stýrivaxta ef árangur á að nást í peningastefnunni og fyrirbyggja þarf að kerfisáhætta byggist upp í fjármálakerfinu. Til auka líkurnar á því að markmið um efnahagslegan stöðugleika náist, þá verður að leggja meiri áherslu á að samtvinna framkvæmd peninga- og þjóðhagsvarúðarstefnu. Þetta er best gert með því að sameina fjármálaeftirlit á Íslandi til að hámarka styrk af kerfinu.

Allt sem þarf er samvinna

Stefnumótandi aðilar á Íslandi verða að skilja að þetta gerist í samvinnu Alþingis og lykilstofnana. Ef ekki er farið af stað í slíka vegferð með því hugarfari, þá skortir vegferðina umboð. Endurskoðun peningastefnunnar á að einblína á þessa þætti og bind ég miklar vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir. Hins vegar er mjög bagalegt þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar eru stöðugt að senda misvísandi skilaboð um umboð nefndarinnar og verkefni. Þetta verklag er ekki líklegt til að skila tilætluðum árangri og dregur úr trausti á getu stjórnvalda til að sigla í höfn þjóðfélagslega mikilvægum verkefnum.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×