Bíó og sjónvarp

Luke er síðasti Jedi-riddarinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Luke Skywalker.
Luke Skywalker. Lucasfilm
Rian Johnson, leikstjóri Star Wars VIII: The Last Jedi, hefur loksins svarað þeirri spurningu sem margir hafa velt vöngum yfir frá því að titill myndarinnar var opinberaður. Luke Skywalker sjálfur er síðasti Jedi-riddarinn. Þetta sagði leikstjórinn í samtali við New York Times.

„Það kemur fram í byrjunartexta The Force Awakens. Luke Skywalker er, akkúrat núna, síðasti Jedi-riddarinn,“ sagði Johnson. Það er svo sannarlega rétt hjá honum.

„Luke Skywalker er horfinn. Í fjarveru hans hefur hin illa regla regla Fyrsta reglan risið upp úr ösku keisaraveldisins og mun ekki hvílast fyrr en Skywalker, síðasti Jedi-riddarinn, hefur verið sigraður.“ Svona byrjaði The Force Awakens sem frumsýnd var í desember 2015.

Það er þó ekki í samræmi við erlendar þýðingar á titli myndarinnar en þar eru Jedi-riddararnir í fleirtölu. Gæti það þýtt að í lok myndarinnar verða síðustu riddararnir fleiri en einn? Sjáum til.

Sjá einnig: The Last Jedi er í fleirtölu

Johnson bætir við að Star Wars myndirnar veiti ákveðið frelsi en í þessari kvikmynd sé Luke síðasti Jedi-riddarinn og enginn viti af hverju hann hafi farið í felur.

Þá staðfestir leikstjórinn að röddin sem heyrist, í einu stiklunni sem búið er að gefa út, segja að kominn sé tími til að binda enda á Jedi-riddarana sé í raun Luke.

Hann segir reyndar einnig að Han Solo snúi aftur sem draugur Máttarins og að Jar Jar Binks sé í raun Snoke, en við skulum gera ráð fyrir að það sé grín.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×