Erlent

Pútín segist ekki vera brúðgumi Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Pútín var ekki hrifin af spurningum um samband hans og Trump Bandaríkjaforseta á blaðamannafundi í dag.
Pútín var ekki hrifin af spurningum um samband hans og Trump Bandaríkjaforseta á blaðamannafundi í dag. Vísir/EPA
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, brást önugur við spurningum blaðamanna í dag um samband hans og Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Sagði hann að Trump væri ekki „brúðurin minn og ég er ekki brúðguminn hans“.

Pútín var spurður að því hvort að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með framferði Trump. Kallaði Pútín spurninguna „barnalega“, að því er segir í frétt The Guardian.

Neitaði hann jafnframt að tjá sig um hvernig rússnesk stjórnvöld myndu bregðast við ef til þess kæmi að Bandaríkjaþing kærði Trump. Sagði Pútín að það væri algerlega rangt af rússneskum stjórnvöldum að úttala sig um innanríkismál Bandaríkjanna.

Bandaríska leyniþjónustan telur að rússnesk stjórnvöld hafi haft afskipti af forsetakosningunum vestanhafs í fyrra með það að markmiði að hjálpa Trump. Það hafi þau meðal annars gert með því að láta tölvuþrjóta brjótast inn í tölvupósta Demókrataflokksins og leka þeim í fjölmiðla til að skaða Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump.

Nokkrar þingnefndir og sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins rannsaka nú hvort að forsetaframboð Trump hafi átt samráð við rússnesk stjórnvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×