Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir niðurstöðurnar í takti við sölu áskriftarkorta fyrirtækisins.
„Við vitum hvað þeir eru komnir með í áskrifendum, um 90 þúsund áskrifendur, og það eru um 120 til 130 þúsund heimili í landinu. Þannig að þetta er verulegur hluti heimila í landinu sem er kominn með áskrift þarna,“ segir Andrés.

Andrés segir að það vanti nákvæma mælingu á áhrifum Costco á samkeppnisaðilana.
„Það er búið að kippa smásöluvísitölunni úr sambandi. Hagar eru hættir að gefa upplýsingar og Costco gefur ekki upplýsingar. Þetta er bagalegt og menn vita ekki hvernig þróunin er frá mánuði til mánaðar. Menn eru bara að leita leiða til að bregðast við því en engin niðurstaða er komin í það ennþá,“ segir Andrés.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er yngra fólk mun líklegra til að hafa verslað í Costco en þeir sem eldri eru. Þannig hafa 68,5 prósent þeirra sem eru í aldurshópnum 18-49 ára verslað í Costco, en 56 prósent þeirra sem eru 50 ára og eldri. Þá eru konur líka líklegri til að hafa farið í Costco en karlar, en tæplega 68 prósent kvenna sem svöruðu segjast hafa farið en einungis rúmlega 59 prósent karla.
Könnun Fréttablaðsins var gerð þannig að hringt var í 1.063 manns í Reykjavík þar til náðist í 791 samkvæmt lagskiptu úrtaki þann 28. og 29. ágúst. Svarhlutfallið var 74,4 prósent og tóku rúm 97 prósent afstöðu til spurningarinnar.