Þetta kemur fram í grein sem Steinar skrifaði í Fréttablaðið í gær sem ber yfirskriftina „Húsbílar frá helvíti?“. Þar bendir hann á að viðskiptavinir húsbílaleiga séu um fjögur prósent af heildarfjölda ferðamanna sem áætlað er að komi hingað til lands á árinu.
Segir hann að meðalleigutími þeirra sem leigi bílaleigubíl sé 3,7 dagar en þeir sem taki húsbíl á leigu dvelji hér að meðaltali í 7,7 daga að meðaltali. Þá bendir Steinar á að virðisaukaskattur á húsbílaleigur sé 24 prósent, en sami skattur á önnur gistiúrræði sé ellefu prósent.
Umræða um húsbílaleigur og þá ferðamenn sem nýta sér húsbílana hefur skotið upp í fjölmiðlum reglulega undanfarin ár. Hafa margir gagnrýnt markaðssetningu þessara fyrirtækja og bent á þá upplifun sína að ferðamenn sem taki húsbíla á leigu eigi það til að koma sér hjá því að gista á viðurkenndum gististöðum.
Athygli vakti til að mynda á síðasta ári þegar ferðaþjónustuaðilar á Egilsstöðum létu framleiða dreifimiða ætluðum húsbílaferðamönnum þar sem sérstök athygli var vakin á því að ekki væri í lagi að stoppa hvar sem er og gista.

Tekjurnar nægar til að reka vegakerfið
Í grein sinni segir Steinar Lár að miðað umfjöllun íslenskra fjölmiðla um húsbíla á undanförnum ára mætti ætla að þessir ferðamenn valdi miklum usla í íslensku samfélagi, sú sé hins vegar ekki raunin.„Þeir ferðamenn sem ferðast og dvelja í húsbílum dreifast um landið allt og skapa því minni hættu á að viðkvæm svæði verði undir átroðningi og skemmdum. Með góðri dreifingu ferðamanna dreifast einnig mikilvægar tekjur til fáfarinna viðkomustaða sem bjóða ekki upp á aðra gistimöguleika,“ skrifar Steinar Lár.
Þá bendir hann á að húsbílaleiga sé dýr ferðamáti fyrir ferðamenn, dýrari en að taka hefðbundin bíl á leigu, auk þess sem að umsagnir erlendra ferðamanna á netinu gefi til kynna að þeir séu mjög ánægðir með upplifun sína á Íslandi.
„Að ofangreindu gefnu má færa fyrir því haldbær rök að ferðamenn sem ferðast á húsbílum séu verðmætir ferðamenn. Þeir dvelji hér lengur og skilji meira eftir sig í tekjum við kaup á mat og þjónustu. Þeir greiða hærri skatta, dreifast betur og eru umfram allt mjög ánægðari með dvöl sína á Íslandi,“ skrifar Steinar Lár.
Segir hann að áætlað sé að heildartekjur húsbílaleigna á ársgrundvelli á Íslandi séu um fimm milljarðar króna í hreinum gjaldeyri á líðandi ári. Bendir hann á í samanburði að heildarframlag ríkisins til Vegagerðarinnar séu 5,9 milljarðar.
„Gætu því þessi 4% ferðamanna sem sækja Ísland heim og nýta sér þennan ferðamáta t.a.m. rekið vegakerfið okkar nánast í heild sinni. Því er óhætt að segja að þessi starfsemi og þær tekjur sem henni fylgja séu samfélaginu okkar mikilvægar.“