Innlent

Sagði Bjarna skamma stéttarfélög fyrir að krefjast kjarabóta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar. vísir/ernir
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gaf lítið fyrir orð Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, um komandi kjaraviðræður en Bjarni ræddi stöðuna í þeim í stefnuræðu sinni í kvöld. Sagði hann meðal annars að gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði hér á landi væri þjóðinni fjötur um fót og að vinnumarkaðslíkanið væri í raun ónýtt.

Í umræðum um stefnuræðuna sagði Logi þetta innlegg Bjarna í kjaraviðræðurnar dapurlegt.

„Stéttarfélög og félagsmenn eru skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta. Nær væri að forsætisráðherra lærði af hinum Norðurlöndunum: Vinnumarkaðslíkan þeirra byggir ekki eingöngu á efnahagslegum stöðugleika; heldur líka félagslegum.  Það mætti ríkisstjórnin að fara að skilja.  Á hinum Norðurlöndunum er fjárfesting hins opinbera í velferðar- og menntakerfinu ásamt umbótum í atvinnulífinu stór hluti af sátt á vinnumarkaði:  Raunverulegar lausnir í húsnæðismálum, auknar vaxtabætur, ríkari stuðningur við barnafjölskyldur hefðu liðkað fyrir, en í nýjum fjárlögum er þetta því miður allt skorið við nögl,“ sagði Logi.

Þá gagnrýndi hann líka orð Bjarna um aukna skattbyrði hjá þeim lægst launuðustu en forsætisráðherra sagði að ef horft væri á ráðstöfunartekjur sambúðaraðila á lægstu launum þá hefðu þær hækkað um um það bil þriðjung á föstu verðlagi frá árinu 1998.

„Hæstvirtur forsætisráðherra bítur þó höfuðið af skömminni þegar hann fullyrðir í ræðunni, að það skipti engu máli að skattbyrði hækki mest á lægstu launin.  Almenn velsæld hafi nefnilega aukist svo mikið.  Skítt með þótt bilið milli þeirra hæst og lægst launuðu breikki. Það væri kannski ágætis hugmynd að hæstvirtur forsætisráðherra bankaði uppá hjá nokkur þúsund börnum sem líða skort, fólki sem hrekst um á ótryggum húsnæðismarkaði, öryrkjum sem lifa margir á hungur lús eða öldruðum í krappri stöðu.  Hann gæti kannski hjálpað þeim að finna, og tína upp brauðmolana, sem falla af veisluborðinu, sem aldrei fyrr.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×