Körfubolti

Samdi við Cavs en vill samt enda ferillinn með Miami Heat

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade vann þrjá NBA-titla með Miami Heat.
Dwyane Wade vann þrjá NBA-titla með Miami Heat. Vísir/Getty
Dwyane Wade er orðinn leikmaður Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni en hann er engu að síður að hugsa um að enda ferillinn hjá öðru liði.

Dwyane Wade sagði í viðtali við Associated Press að hans ósk sé að enda körfuboltaferilinn sem leikmaður Miami Heat.

 „Ég veit ekki hvernig það mun koma til en ég vil gera allt til þess að klára ferillinn í búningi Miami Heat. Ég gæti spilað þarna aftur eða að fá að gera eins og Paul Pierce og skrifa undir eins dags samning,“ sagði Dwyane Wade.

Chicago Bulls keypti Dwyane Wade út úr samningi hans við félagið og hann átti möguleika á því að fá betri samning hjá öðrum liðum en Cleveland Cavaliers. Hjá Cleveland Cavaliers fær hann aðeins lágmarkslaun.



Miami Heat, Oklahoma City Thunder og San Antonio Spurs gátu öll boðið honum mun meira en hann ákvað að semja fyrir minna og koma til LeBron James í Cleveland alveg eins og LeBron gerði fyrir nokkrum árum og kom til Wade í Miami Heat.

Dwyane Wade er orðinn 35 ára gamall og á því ekki mörg ár eftir í NBA-boltanum. Hann skoraði hinsvegar yfir 18 stig í leik á síðustu leiktíð með Chicago Bulls og getur enn spilað meðal þeirra bestu.

Wade fór óvænt frá Miami Heat þegar hann samdi við Chicago Bulls fyrir 2016-17 tímabilið. Þrátt fyrir að hann hafi hafnað tilboði Miami og farið þá segja bæði hann sjálfur og Pat Riley að allt sé í góðu á milli þeirra og að Wade sé velkominn aftur til Flórída.

„Það verður alltaf lykill fyrir hann undir mottunni. Ég vona bara að hann ryðgi ekki,“ sagði Pat Riley eftir að Wade yfirgaf Miami Heat fyrir rúmu ári síðan.



Þeir LeBron James og Dwyane Wade skáluðu í rauðvíni eftir fyrstu æfingu sína saman sem leikmenn Cleveland Cavaliers en áður höfðu þeir æft oft saman sem leikmenn Miami Heat og bandaríska landsliðsins.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×