Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Halmstad í sigri liðsins á Íslendingaliðinu Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni.
Tryggvi skoraði annað mark Halmstad á 51. mínútu leiksins. Hann var svo tekinn af velli í uppbótartíma seinni hálfleiks.
Áður hafði Höskuldur Gunnlaugsson lagt upp fyrra mark Halmstad fyrir Alexander Berntsson á 40. mínútu.
Linus Wahlqvist klóraði í bakkann fyrir Norrköping á 88. mínútu, en nær komust gestirnir ekki og fór Halmstad með 2-1 sigur.
Jón Guðni Fjóluson og Guðmundur Þórarinsson spiluðu allan leikinn fyrir Norrköping. Arnór Sigurðsson kom inn fyrir David Karlsson á 71. mínútu en Alfons Sampsted var allan leikinn á bekknum.
Halmstad kom sér með sigrinum af botni deildarinnar, upp fyrir lið Eskilstuna. Leikurinn var sá fyrsti í 25. umferðinni, svo liðið gæti fallið á botninn aftur á mánudaginn þegar öll lið hafa leikið 25 leiki.
Norrköping er hins vegar í ágætum málum í 5. sæti deildarinnar með 40 stig.

