Það er snjór og krapi í kortunum til fjalla norðan lands í nótt og á morgun ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir að í dag og á morgun muni kólna dálítið auk þess sem það mun hvessa og bæta í úrkomuna um landið norðanvert. Líklegt er að með allhvassri norðanátt í nótt og á morgun og hita um 2 til 5 stig á lálendi fyrir norðan að úrkoma fyrir ofan 200 metra yfir sjávarmáli falli þá sem slydda eða snjókoma.
Því getur myndast krapi á fjallvegum á Norðurlandi og jafnvel austur á Hérað. Það er því vissara fyrir vegfarendur að hafa það í huga. Undir helgina er síðan spáð hlýnandi veðri á ný.
Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:
Norðvestan og vestan 3-10 m/s. Skýjað og væta öðru hverju, en léttskýjað suðaustanlands. Norðaustan 5-13 eftir hádegi og víða rigning norðanlands og rigning um tíma syðst síðdegis, annars þurrt. Bætir í vind og úrkomu norðanlands seint í kvöld, norðvestan 10-18 N- og A-til í nótt og á morgun, en annars mun hægari. Rigning á N- og A-landi og slydda til fjalla, en yfirleitt þurrt um landið S- og V-vert. Hiti 2 til 10 stig, svalast NA-til á morgun.
Á fimmtudag:
Vestlæg átt, 3-8 m/s. Léttskýjað að mestu um landið austanvert, annars skýjað en þurrt. Hiti 5 til 12 stig að deginum, hlýjast suðaustanlands.
Á föstudag:
Suðaustlæg átt, hlýnandi veður og fer að rigna suðvestanlands um kvöldið, annars víða bjartviðri.
Á laugardag og sunnudag:
Suðlæg átt og rigning eða skúrir, en bjartviðri að mestu norðaustantil. Hiti 6 til 11 stig.
Á mánudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með talsverðri vætu sunnantil á landinu, en úrkomulítið fyrir norðan og fremur milt.
Snjór og krapi í kortunum
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
