Halda tónleika á kosninganótt fyrir þá sem taka sjálfu á kjörstað
Ingvar Þór Björnsson skrifar
Hluti þeirra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinniVísir/Eyþór
Margir af fremstu tónlistarmönnum landsins munu koma fram á Vökunni 2017, tónleikum sem verða haldnir á kosninganótt í Valsheimilinu. Borgarráð samþykkti í gær að veita verkefninu styrk að upphæð 2.000.000 króna en tónleikarnir eiga að stuðla að aukinni kosningaþátttöku ungs fólks. Segir Hrönn Sveinsdóttir, einn skipuleggjandi hátíðarinnar, í samtali við Vísi að um sé að ræða stærstu kosningavöku landsins.
Skipuleggjendur tónleikanna.Vísir/EyþórHugmyndin er að fara nýjar leiðir í að fá ungt fólk til að kjósa. Ekki verða seldir miðar á tónleikana – aðgöngumiðinn fæst gegn því að kjósa i kosningunum. Þeir sem vilja fara á tónleikana verða því að taka sjálfu af sér fyrir utan kjörstað og sýna myndina við inngang á tónleikanna.
Segir í styrkumsókninni til borgarráðs að verkefnið sé mjög samfélagsmiðlavænt, „en allt peppið og tónlistarmennirnir sjálfir munu fara mikinn á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninganna undir viðeigandi myllumerkjum og öðru slíku.“
Meðal þeirra sem koma fram eru Aron Can, Reykjavíkurdætur, Sturla Atlas, Birnir og Páll Óskar.