Sjálfstæðisflokkurinn fengi rúmlega 22 prósent atkvæða, sem er sama fylgi og flokkurinn var með í könnun fyrir viku. Þá er Miðflokkurinn með rúmlega 9 prósenta fylgi, Píratar eru með 8,5 prósent, sem er 2,9 prósentustigum minna en flokkurinn var með í könnun blaðsins fyrir viku. Samfylkingin er með rúmlega 8 prósenta fylgi, Framsóknarflokkurinn með rúm 7 prósent og Flokkur fólksins með rúmlega 6. Viðreisn er svo með 3,3 prósenta fylgi og Björt framtíð með rúmlega 3,6 prósent.
Ef þetta yrðu niðurstöður kosninga fengju Vinstri græn 21 þingmann og yrðu langstærsti flokkurinn á þingi. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 16 þingmenn, Miðflokkurinn og Píratar fengju sex menn hvor, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn fengju 5 menn hvor og Flokkur fólksins fjóra menn. Hvorki Björt framtíð né Viðreisn fengju kjörna þingmenn.
Hringt var í 1.322 manns þar til náðist í 804 samkvæmt lagskiptu úrtaki 10. október. Svarhlutfallið var því 60,8 prósent. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?
Alls tóku 66 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Um 10 prósent sögðust ekki kjósa eða ætla að skila auðu, 13 prósent sögðust vera óákveðin og tæplega 11 prósent svöruðu ekki.