Handbolti

Hinn afar umdeildi Mustafa einn í framboði til forseta IHF

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hassan Mustafa, umdeildur forseti IHF.
Hassan Mustafa, umdeildur forseti IHF. Vísir/Getty
Hassan Mustafa fékk ekkert mótframboð til embættis forseta IHF, Alþjóðahandknattleikssambandsins, en kosningin fer fram á þingi sambandsins í Tyrklandi síðar í þessari viku.

Mustafa hefur verið forseti IHF síðan 2000 og hefur þótt umdeildur í starfi, ekki síst í Evrópu. Það er þó ljóst að hann verður áfram forseti næstu fjögur árin hið minnsta og mun þá hafa gegnt embættinu í 21 ár.

Á þinginu verða skipan í nefndir staðfestar sem og kosið í öll helstu embætti. Enginn Íslendingur mun taka sæti í nefndum á vegum sambandsins né heldur er Íslendingur í framboði til embættis innan sambandsins.

Allir forverar Mustafa voru Evrópumenn en IHF var stofnað árið 1946. Mustafa, sem er fyrrum landsliðsmaður Egyptlands í handbolta, er 73 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×