Innlent

Veðrið hefur áhrif á átta þúsund ferðalanga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Icelandair tók ákvörðun um að aflýsa flugi um hádegisbil en WOW air hafa seinkað flugferðum.
Icelandair tók ákvörðun um að aflýsa flugi um hádegisbil en WOW air hafa seinkað flugferðum. Vísir/Anton Brink.
„Þetta eru, þegar allt er saman talið, rúmlega fimmtíu flug sem annað hvort er seinkað verulega eða aflýst,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair en stormviðri hefur haft gífurleg áhrif á flugsamgöngur. Ákvörðunin um seinkunina var tekin um hádegisbil í dag.

Guðjón segir að þetta komi til með að hafa áhrif á átta þúsund manns á Íslandi, Evrópu og Bandaríkjunum.

WOW air ekki tekið ákvörðun um að aflýsa

Svana Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir í samtali við Vísi að ekki hafi verið tekið ákvörðun um að aflýsa flugferðum. „Við erum ekki búin að aflýsa flugum við erum bara með þær í seinkun.“

Svana segir þó að farþegar hljóti upplýsingar um gang mála með smáskilaboðum og tölvupóstum en auk þess séu upplýsingar að finna á heimasíðu WOW air

Kröpp lægð færist nú yfir landið og veðurviðvaranir eru í gildi um allt land. Millilands- og innanlandsflugferðum hefur verið aflýst og til stendur að loka hlutum hringvegarins síðdegis.

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa Isavia við gerð fréttarinnar. 


Tengdar fréttir

Aðgerðastjórn virkjuð á höfuðborgarsvæðinu

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir engin útköll enn hafa borist björgunarsveitinni í dag þrátt fyrir aftakaveður en lögreglan hafi þó sinnt einhverjum verkefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×