Skoðun

Staða kvenna á Alþingi sterkust í Framsókn

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Alþjóðaefnahagsráðinu mælist hvergi meiri jöfnuður á milli kynjanna en á Íslandi en niðurstöðurnar voru kynntar í gær.

Þetta er níunda árið í röð sem Ísland er í fyrsta sæti. Þegar kynjajafnrétti er mælt er litið til fjögurra þátta; heilbrigði, menntunar, efnahagslegrar stöðu og stjórnmálaþátttöku. Þrátt fyrir að þetta sé afar góð niðurstaða, þá er niðurstaða alþingiskosninganna vonbrigði þegar litið er til jafnréttissjónarmiða. Konum á Alþingi fækkar úr 30 í 24 og hafa kynjahlutföllin í þinginu ekki verið verri síðan árið 2007. Konur verða því aðeins 38% þingmanna í stað 47,6% eftir kosningarnar árið 2016, þegar 30 konur og 33 karlar tóku sæti á Alþingi. Vert er að hafa í huga að einungis tólf þjóðir í heiminum geta státað af því að hafa hlutfall kvenna á þingi yfir 40%. Kynjahlutfallið hjá Framsóknarflokknum er nú hagstæðast allra flokka hjá konum á Alþingi. Ég er stolt af því að tilheyra stjórnmálaafli þar sem staða kvenna á þingi er þetta góð. Jafnréttismál eru mannréttindamál sem stöðugt þarf að vinna að. Þó okkur hafi ekki tekist að viðhalda sama þingstyrk kvenna í kosningunum nú verðum við að gera það besta úr stöðunni.

Tefla verður fram konum í ráðherraembætti og til formennsku í nefndum. Þannig geta stjórnmálaflokkarnir sýnt í verki áherslur sínar í jafnréttismálum og aukið áhrif þeirra á þingi. Í ljósi stöðunnar á Alþingi hvet ég alla þá sem taka þátt í stjórnmálastarfi á Íslandi að hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi þegar framboðslistar til sveitarstjórna verða settir fram. Að sama skapi þurfa konur í enn ríkari mæli að láta til sín taka í stjórnun fyrirtækja, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Við þurfum að halda áfram að vinna að því að jafna hlut kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins, vinna gegn kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kynbundinn launamun. Það er mín trú að þótt kynjahalli sé nú á Alþingi verði rödd þingkvenna sterk á komandi misserum.

Höfundur er varaformaður Framsóknarflokksins




Skoðun

Sjá meira


×