Viðskipti erlent

Norski olíusjóðurinn hyggst selja hlutabréf sín í olíu- og gasfyrirtækjum

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Tillagan þarfnast samþykkis fjármálaráðuneytisins og norska þingsins.
Tillagan þarfnast samþykkis fjármálaráðuneytisins og norska þingsins. Vísir/AP
Stjórnendur norska olíusjóðsins hafa lagt það til að sjóðurinn selji hlutabréf sín í fyrirtækjum í olíu og gasiðnaði. Eignir sjóðsins eru metnar á rúmlega eina billjón (þúsund milljarðar) dollara og er hann sá stærsti sinnar tegundar í heiminum.

Þetta kemur fram í bréfi sem Seðlabanki Noregs, sem stýrir eignum olíusjóðsins, hefur sent til norska fjármálaráðuneytisins. Tillagan þarfnast samþykki ráðuneytisins og norska Stórþingsins. Í kringum sex prósent af heildareignum norska olíusjóðsins eru bundin í hlutabréfum í olíu- og gasfyrirtækjum, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Í bréfi norska seðlabankans segir að með þessu móti, en Noregur er einn af stærstu olíuframleiðendum heims, yrði dregið úr áhættu norska hagkerfisins gagnvart verðþróun í olíu- og gasiðnaði. Norski olíusjóðurinn er meðal annars hluthafi í alþjóðlegum orkufyrirtækjum á borð við BP, Royal Dutch og ExxonMobil.

Sjóðurinn hefur á undanförnum árum stækkað ört og í dag nema heildareignir hans nærri tvö hundruð prósent af landsframleiðslu Noregs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×