Körfubolti

Derrick Rose í leyfi - Óvíst hvort hann snúi aftur á völlinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rose í leik með Cleveland Cavaliers
Rose í leik með Cleveland Cavaliers
Derrick Rose er í tímabundnu leyfi frá körfubolta og er talið óvíst að hann snúi aftur á körfuboltavöllinn en ferill kappans hefur verið plagaður af meiðslum.

Þessi 29 ára gamli leikstjórnandi gekk til liðs við Cleveland Cavaliers í sumar en hefur misst af 12 leikjum það sem af er tímabili, þar af síðustu sjö vegna ökklameiðsla.

Samkvæmt heimildum ESPN íhugar Rose nú alvarlega að leggja skóna á hilluna en sífelld meiðsli undanfarinna ára hafa haft mikil áhrif á andlega heilsu Rose.

Rose fékk leyfi frá Cavaliers til að yfirgefa liðið um stund og hafa liðsfélagar hans sagst standa með honum. Þá hefur þjálfari liðsins, Tyronn Lue sagt opinberlega að Rose muni fá þann tíma sem hann þarf og að allt félagið standi á bak við hann.

Rose var á sínum tíma ein skærasta stjarna NBA deildarinnar og var leikmaður ársins 2011 þegar hann fór fyrir liði Chicago Bulls.

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×