Tölvuhakkarar brutust í gærnótt inn í kerfi slóvenska Bitcoin fyrirtækisins NiceHash og höfðu á brott með sér rafeyri sem nemur um 83 milljónum dollara, eða í kringum 8,7 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Vefsíða The Guardian greinir frá.
Segir þar að tölvuárásin hafi augljóslega verið framkvæmd af fagmönnum en þeir námu á brott 4.700 Bitcoin aurum.
Gengi Bitcoin hefur hækkað á ógurlegum hraða undanfarna daga, og þá sérstaklega í dag, en það sést bersýnilega þegar frétt Guardian er borin saman við þá sem er nú skrifuð. 4.700 Bitcoin aurar námu í morgun um 6,7 milljörðum íslenskra króna en þegar þessi frétt er skrifuð eru þeir um 8,7 milljarðar króna.
NiceHash selur aðgang að „Bitcoin-námum“ og gefst viðskiptavinum þar kostur á að ganga frá kaupum og sölum á þessari vinsælu rafmynt.
