Innlent

Maðurinn sem grunaður er um tilraun til manndráps laus úr haldi

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur féllst ekki á sjónarmið lögreglunnar um að maðurinn ætti að sitja í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Hæstiréttur féllst ekki á sjónarmið lögreglunnar um að maðurinn ætti að sitja í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur hafnað kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að maðurinn sem grunaður er um alvarlegt heimilisofbeldi í Holtunum í Reykjavík sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við Vísi en ekki er búið að birta úrskurð Hæstaréttar.

Guðmundur segir Héraðsdóm Reykjavíkur hafa fallist á sjónarmið lögreglunnar þess efnis að maðurinn ætti að sitja í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en því var Hæstiréttur ekki sammála.

Er maðurinn því laus úr haldi en Guðmundur Páll segir lögreglu vera skoða næstu skref í málinu.

Maðurinn sem um ræðir er 22 ára gamall en hann hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 15. desember, grunaður um alvarlegt heimilisofbeldi gegn 27 ára gamalli konu.

Guðmundur Páll sagði lögreglu rannsaka málið sem tilraun til manndráps en maðurinn er sakaður um að hafa tekið konuna hengingartaki þar til hún missti meðvitund.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði konan að hún vissi ekki hve lengi hún var meðvitundarlaus. Það hafi þó verið þó nokkur tími og hún komist aftur til meðvitundar klukkan fimm á sunnudagsmorgun og hlaupið þá út úr húsinu í Holtunum í Reykjavík þar sem hún náði að gera nærstöddum viðvart sem höfðu samband við lögreglu.

Í frétt Ríkisútvarpsins um málið í gær kom fram að maðurinn eigi annað ofbeldismál á skrá hjá lögreglu gegn þessari sömu konu. Guðmundur Páll sagði við Vísi að það má væri ekki ósvipað því sem átti sér stað um liðna helgi.

„En kannski ekki eins svívirðileg árás og þessi um helgina,“ sagði Guðmundur. 





Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×