Veðurstofan er ekkert að flækja málið í spá sinni í dag. „Í stuttu máli: víða bjart, stillt og kalt veður í dag, síðan rysjótt og mildara,“ segir á vef stofnunarinnar.
Í aðeins lengra máli þá verður norðlæg átt, víða 3 til 8 m/s og bjartviðri í dag en dálítíl él norðaustantil fram eftir degi. Frostið verður á bilinu 1 til 12 stig og verður kaldast í innsveitum.
Það mun svo bæta eilítið í vind á morgun. Veðurstofan gerir ráð fyrir um 10 til 15 m/s og rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands síðdegis. Það verður þó hægari vindur og úrkomulítið á Norðausturlandi fram eftir morgundeginum en dálítil slydda eða snjókoma um kvöldið.
Þá er búst við suðvestan eða vestan kalda með lítilsháttar él á sunnudag en að það muni létta til á austanverðu landinu. Það mun svo líklega hvessa af suðri um kvöldið, fyrst suðvestanlands.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Vaxandi suðaustanátt, 10-15 m/s með slyddu eða rigningu og 0 til 5 stiga hita S- og V-lands síðdegis. Hægari vindur NA-til, dálítil slydda eða snjókoma með kvöldinu og hiti um frostmark.
Á sunnudag:
Suðvestan og vestan 8-13 m/s. Léttskýjað á A-verðu landinu, annars él. Hiti kringum frostmark. Snýst í vaxandi SA-átt SV-lands um kvöldið.
Á mánudag:
Sunnanátt og milt veður. Súld eða rigning, en úrkomulítið NA-lands.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðvestanátt með skúrum og síðar éljum, en þurrt á NA- og A-landi.
Á fimmtudag:
Vestlæg átt og él, en bjartviðri A-lands. Frost 0 til 5 stig.
Rysjótt veður í vændum
Stefán Ó. Jónsson skrifar
