Innlent

Brynjar Níelsson aftur á Facebook á morgun

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Brynjar hætti á Facebook um miðjan nóvember síðastliðinn og sagðist hann óttast að samskiptamiðlar væru farnir að hafa alvarleg áhrif á geðheilsu þjóðarinnar.
Brynjar hætti á Facebook um miðjan nóvember síðastliðinn og sagðist hann óttast að samskiptamiðlar væru farnir að hafa alvarleg áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Vísir/Vilhelm
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, býst við því að snúa aftur á Facebook á morgun. Brynjar mun hafa tilkynnt þetta fyrst í ræðu á jólahlaðborði Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Brynjar ákvað að hætta á Facebook um miðjan nóvember síðastliðinn og sagði hann að hann óttaðist að samskiptamiðlar væru farnir að hafa alvarleg áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Þingmaðurinn hafði verið mjög áberandi á samfélagsmiðlinum og vöktu færslur hans oft og einatt mikla athygli og umtal.

Í samtali við Vísi segir Brynjar að það hafi gengið vel að vera án samskiptamiðilsins. „Mér hefur liðið vel án Facebook. Þetta venst eins og allt annað,“ segir Brynjar. „Ég lofaði því að koma aftur á Facebook í einhverju bríaríi.“

Aðspurður hvort hann telji nauðsynlegt fyrir þingmenn að nota samfélagsmiðilinn til að tjá skoðanir sínar segir Brynjar að erfitt sé að vera alveg í burtu frá samskipamiðlinum ef maður starfar í stjórnmálum. „Ég held að þú getir ekki verið alveg í burtu frá Facebook ef þú ætlar að vera í pólitík. Allavega ekki í lengri tíma í einu en það þarf kannski ekki að skrifa færslur á hverjum degi. Það skiptir þó máli að geta brugðist við fljótt,“ segir hann.

Mun ábyggilega skrifa eitthvað „fíflarí“ á morgun

Brynjar segir að stundum hafi verið erfitt að geta ekki notað Facebook til að tjá sig. „Stundum hefur mann langað að tjá sig en svo lagast það nú bara. Það er ekki hægt að vera í pólitík og segja ekki neitt. Þetta var samt ágætis hvíld,“ segir þingmaðurinn.

Þá segir hann að fólk misskilji hann ósjaldan á Facebook. „Ég held það en ég get líka sjálfum mér um kennt í því. Það skiptir máli hvernig þú setur hlutina fram.“

Brynjar segist búast við því að virkja Facebook aðganginn sinn aftur á morgun og að hann komi til með að skrifa eitthvað á léttu nótunum. „Ætli ég reyni ekki á morgun að opna Facebook aðganginn aftur þegar það er kominn vinnudagur. Ég mun ábyggilega skrifa eitthvað fíflarí á morgun, af hverju ég byrjaði aftur og eitthvað svoleiðis.“


Tengdar fréttir

Brynjar hættir á Facebook

Brynjar Níelsson óttast að samskiptamiðlar séu farnir að hafa alvarleg áhrif á geðheilsu þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×