Innlent

Hefur hafið tilraunir með kakóframleiðslu

Ingvar Þór Björnsson og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi hefur hafið tilraunir með kakóframleiðslu á Íslandi en von er á fyrstu uppskeru mjög fljótlega.

Í Garðyrkjuskólanum, sem er hluti af Landbúnaðarháskóla Íslands er svokallað bananagróðurhús með hitabeltisplöntum. Þar er til dæmis að finna fimm ára gamla kakóplöntu. Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum í Ölfusi sýndi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hvernig ræktun á kakóbaunum gengur fyrir sig.  

Fræbelgur kakóplöntunnar er stór og hvítur að innan með tveggja til þriggja sentímetra þykku aldini sem umlykur fræin. Í honum myndast allt að sextíu fræ sem eru hinar eiginlegu kakóbaunir sem eru þurrkaðar og muldar í duft sem er þá kakóið sjálft.

Guðríður segir mjög gaman fyrir skólann og ekki síst nemendur hans að gera tilraunir með kakóplönturnar. „Auðvitað verður þetta ekki stóriðnaður á Íslandi í sumar en hugsanlega er þetta tækifæri fyrir einhvern til að fara af stað og rækta kakó og framleiða eitthvað eðal íslenskt gúmmelaði kakó eða súkkulaði,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×