Körfubolti

22 ár síðan að Magic hætti við að hætta og mætti aftur í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magic Johnson býr sig undir að koma inná NBA-völlinn á ný 30. janúar 1996.
Magic Johnson býr sig undir að koma inná NBA-völlinn á ný 30. janúar 1996. Vísir/Getty
30. janúar er stór dagur á körfuboltaferli Bandaríkjamannsins Magic Johnson því fyrir 22 árum snéri aftur í NBA-deildina eftir rúmlega fjögurra ára fjarveru.

Magic Johnson hafði lagt skóna á hilluna eftir að hann greindist með HIV-veiruna haustið 1991 en lék bæði í Stjörnuleiknum 1992 sem og á Ólympíuleikunum í barcelona 1992.

Þegar Magic snéri aftur til Los Angeles Lakers 30. janúar 1996 hafði hann ekki spilað með liðinu síðan í júní 1991.

Magic á 37 ára aldursári þegar hann snéri aftur í Lakers-liðið í janúarmánuði 1996. Hann hafði stýrt liðinu í sextán leikjum tímabilið 1993-94 en kláraði nú 1995-96 tímabilið með Lakers.

Fyrsti leikurinn var á heimavelli á móti Golden State Warriors og vannst með tíu stigum. Magic var með 19 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst á 27 mínútun.







Leikirnir með Los Angeles Lakers fram á vor 1996 voru síðustu körfuboltaleikir Magic Johnson á ferlinum. Í 32 deildarleikjum  með Lakers var hann með 14,6 stig, 5,7 fráköst og 6,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Síðustu fjórir leikirnir voru hinsvegar í úrslitakeppninni þar sem Los Angeles Lakers datt út 1-3 á moti Houston Rockets. Magic var með 15,3 stig, 8,5 fráköst og 6,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Í lokaleiknum 2. maí 1996 skoraði hann átta stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar en Lakers tapaði með 8 stigum og var komið í sumarfrí.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×