Innlent

Borga áhrifavöldum 50 þúsund kall fyrir að vekja athygli á meistaramánuði

Birgir Olgeirsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Í einstaka tilfellum var greitt fyrir aðstoðina en það var í undantekningartilfellum, segir samskiptastjóri bankans.
Í einstaka tilfellum var greitt fyrir aðstoðina en það var í undantekningartilfellum, segir samskiptastjóri bankans. Vísir/Anton Brink
Íslandsbanki leitaði á náðir áhrifavalda til að vekja athygli á Meistarmánuðinum þetta árið. Er þeim ætlað að vekja athygli á mánuðinum á samfélagsmiðlum gegn greiðslu. Þeir sem taka þátt í Meistaramánuði eiga að setja sér markmið með það að leiðarljósi að verða betri útgáfan af sjálfum sér.

Meistaramánuðurinn hóf göngu sína árið 2008 en var ekki haldinn formlega árin 2015 og 2016. Íslandsbanki ákvað að endurvekja meistaramánuðinn í fyrra og heldur einnig utan um hann í ár.

Fólk hefur væntanlega ekki farið varhluta af auglýsingum Íslandsbanka fyrir þetta átak í ár en bankinn fór einnig þá leið að greiða svokölluðum áhrifavöldum fyrir að minna á Meistaramánuðinn.

Að neðan má sjá færslur nokkurra þjóðþekktra einstaklinga sem hafa vakið athygli á Meistaramánuði undanfarinn sólarhring.

Innan við tíu manns

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, segir í samtali við Vísi að Íslandsbanki sé í samstarfi við ýmsa aðila til að vekja athygli á meistaramánuðinum.

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka.
„Í einstaka tilfellum var greitt fyrir aðstoðina en það var í undantekningartilfellum,“ segir Edda.

Spurð hve mörgum áhrifavöldum var greitt fyrir að minna á meistaramánuð segir hún það hafa verið innan við tíu manns sem fengu borgað fyrir. Samkvæmt heimildum Vísis fékk hver áhrifavaldur 50 þúsund greiddar frá Íslandsbanka fyrir að minna á meistaramánuð.

Áhrifavaldar eru heiti yfir einstaklinga sem þykja vinsælir á helstu samfélagsmiðlunum, Snapchat, Instagram, Twitter og Facebook. Leita fyrirtæki oft til þessara áhrifavalda til að fá þá til að kynna vöru eða þjónustu.

Vel þekkt er að vinsælir snapparar taka margir hverjir við greiðslum fyrir að auglýsa vörurnar sínar.Vísir
Neytendastofa hefur gefið út leiðbeiningar

Þegar slíkt er gert þarf viðkomandi áhrifavaldur að taka fram að um sé auglýsingu að ræða og hann hafi fengið greitt fyrir að kynna vöruna eða þjónustuna. Ef það er ekki gert er um að ræða dulda auglýsingu sem eru bannaðar á Íslandi. Ekki fæst séð að nein færsla undir merkjum #meistari hafi verið merkt #AD.

Samkvæmt sjöttu grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu skulu auglýsingar þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða.

Neytendastofa hefur gefið út sérstakar leiðbeiningar um hvernig markaðssetningu skuli háttað á samfélagsmiðlum.

Leiðbeiningar Neytendastofu eru byggðar á samnorrænum reglum. Í þeim kemur fram að ef greitt er fyrir umfjöllun, eða annað endurgjald kemur fyrir umfjöllun um vöru eða þjónustu á samfélagsmiðli, þá er um auglýsingu að ræða. Þá segir að neytendur eigi lagalegan rétt á því að vita hvenær verið er að reyna að selja þeim eitthvað.​


Tengdar fréttir

Vilja borga íslenskum Instagram-stjörnum

Sprotafyrirtækið Takumi tengir saman fyrirtæki og íslenska áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Gengið hefur vel í Bretlandi og hefst íslensk herferð fyrir jólin. Hlutafé fyrirtækisins var aukið nýlega og stefnir það næst til Bandaríkjanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×