Hlauparinn og umhverfisstjórnunarfræðingurinn Stefán Gíslason er ánægður með tilkoma þessa nýja æðis sem hefur margþætt notkunargildi.
„Mér líst bara mjög vel á. Það er skemmtilegt að þarna sé verið að flétta tvennu saman, og meira að segja fleira en tvennu. Þetta snýst auðvitað um að hlaupa og tína upp rusl en þetta snýst líka um samveru.“
„Svo er þetta meiri líkamsrækt heldur en bara hlaup, fólk er líka að gera hnébeygjur í leiðinni.“Stefán hefur orðið þess var að plogging sé að ná útbreiðslu. „Það er talað um að þetta sé sænsk hugmynd en ég hef líka séð að þetta er gert til dæmis í Taílandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.“
Sjálfur hefur Stefán ekki prófað að plogga en hann er opinn fyrir að gefa þessu æði séns. „Þetta er góð hugmynd og með margþætt notagildi. Með þessu er til dæmis hægt að vekja athygli á hversu fáránlega mikið rusl lendir á götunni,“ útskýrir Stefán sem sér mikla möguleika í plogginu.
„Það er hægt að nota þetta sem útgangspunkt fyrir umhverfisumræðu í nærumhverfinu. Svo hefur fólk verið að gera keppni úr þessu og birta myndir af sér á Instagram og Facebook. Þetta getur líka verið leið fyrir fólk sem er ekki endilega hlauparar til að koma sér af stað, vegna þess að það er farið hægt yfir.“
Spurður út í hvort hann verði var við mikið rusl þegar hann hleypur svara hann játandi.
„Já, af nógu er að taka. Maður fer ekki út að hlaupa án þess að sjá eitthvað rusl. Það er alls staðar, eiginlega alveg sama hvert maður fer, jafnvel uppi á fjöllum. Sérstaklega plast.“