Innlent

Eigendur bera kennsl á þýfi og meintir þjófar áfram í haldi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Einkennandi hefur verið að þjófarnir brjótast inn baka til.
Einkennandi hefur verið að þjófarnir brjótast inn baka til. Vísir/Pjetur
„Það er herjað á okkur, virðist vera,“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.

Fjórir menn hafa verið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að tengjast innbrotunum. Tveir menn voru í fyrradag úrskurðaðir í áframhaldandi varðhald í fyrradag og til stóð að framlengja varðhald annarra tveggja í gær. Annar af fyrri tveimur er kominn í umsjón barnaverndaryfirvalda.

Tveir úr þessum hópi eru ekki búsettir á Íslandi. „Þetta eru erlendir aðilar að hluta til,“ segir Skúli. Meðal þess sem tilheyri rannsókninni sé að afla upplýsinga um þessa menn erlendis frá.

Lögreglan lagði hald á talsvert af munum úr fórum mannanna sem Skúli segir að svari til lýsinga úr nýlegum innbrotum.

„Hluti af vinnunni núna er að bera kennsl á þessa hluti,“ segir hann og bendir á að tilkynnt hafi verið um innbrot á 64 stöðum. Nokkuð snúið getur verið að finna rétta eigendur að hverjum hlut.

„Við finnum þetta ekki á vettvangi í Ziplock-pokum merkta húsunum. Það er búið að hræra öllu saman,“ útskýrir Skúli. Teknar séu myndir af þýfinu og haft samband við fólk.

„Þekkir það sína muni eða ekki? Þetta er mikil vinna en það er ekki þannig að við séum með einhverja tugi kílóa af skartgripum – þetta er ekki meiriháttar flækja.“


Tengdar fréttir

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna innbrotahrinu

Karlmaður var í dag úrskurðaður í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×