Skoðun

Kristmann

Óttar Guðmundsson skrifar
Las á dögunum merkilega bók eftir Sigurjón Magnússon, Borgir og eyðimerkur, sem fjallar um einn dag í lífi Kristmanns Guðmundssonar rithöfundar.

Ég var alinn upp á vinstri sinnuðu bókmenntaheimili. Kalda stríðið var í algleymingi og heitasta deiluefnið var herinn á Miðnesheiði. Listamenn voru flestir vinstri sinnaðir hernámsandstæðingar undir forystu bókmenntapáfans Kristins E. Andréssonar. Hann var Stalínisti af gamla skólanum og bilaði aldrei í trúnni. Á mínu heimili ríkti bókmenntafræðilegur rétttrúnaður. Litið var á Halldór Laxness eins og Jesú Krist, lærisveinarnir voru rithöfundar sem fylgdu réttri línu. Djöfullinn sjálfur og árar hans voru höfundar sem efuðust um óskeikulleika Kristins E. og annarra helgra manna. Fremstur í þeim fjandaflokki var einmitt Kristmann Guðmundsson.

Menn gátu reiknað með miklum velvilja Kristins og kó ef þeir hjóluðu í Kristmann. Thor Vilhjálmsson réðst að honum af slíkri heift að Kristmann ákvað að fara í meiðyrðamál. Málaferlin snerust upp í farsa þar sem Kristmann fór halloka. Í bók Sigurjóns bíður hann niðurstöðu dómsins. Hann rifjar upp átök við samferðamenn sína og lítur beiskur um öxl. Kristmann var í raun skotspónn skipulagðs pólitísks eineltis þar sem hann var úthrópaður sem ritþjófur, ofbeldismaður og kvennajagari. Bækur hans voru afskrifaðar sem einskis verðar vinnukonubókmenntir. Þessi hjarðhegðun minnir reyndar á samfélagsmiðla samtímans. Það var tími til kominn að einhver tæki upp hanskann fyrir Kristmann og sýndi manneskjuna bak við níðmyndina. Sagan gekk reyndar í lið með Kristmanni. Búið er að kasta pólitískum skoðunum Kristins E. á öskuhauga sögunnar. Rómantískur sósíalismi Kristmanns er ráðandi á öllum framboðslistum. Svona eru vegir réttlætisins órannsakanlegir.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×