Golf

Læti í Tiger á lokahringnum en Rory McIlroy fagnaði sigri eftir mikinn fugladans í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy fagnar sigri.
Rory McIlroy fagnar sigri. Vísir/Getty
Norður-Írinn Rory McIlroy vann sitt fyrsta mót síðan í september 2016 þegar hann tryggði sér sigur á Arnold Palmer boðsmótinu í nótt.

Rory McIlroy endaði hringina fjóra á átján höggum undir pari en það var þó Tiger Woods sem fékk mestu athyglina á lokahringnum þegar hann gerði sig líklegan til að ná efstu mönnum.



McIlroy hafði ekki unnið mót í 539 daga eða síðan að hann vann Tour Championship 25. september 2016 en það var einmitt dagurinn sem Arnold Palmer dó.





Rory McIlroy spilaði vel allt mótið en aldrei betur en á sex síðustu holunum þegar hann fékk fimm fugla. Hann endaði mótið þremur höggum á undan Bandaríkjamanninum Bryson DeChambeau sem kom næstur.





Englendingurinn Justin Rose (-14) og Svíinn Henrik Stenson (-13) komu í næstu sætum en Tiger Woods endaði í fimmta sæti með landa sínum Ryan Moore á tíu höggum undir pari.

Tiger Woods var um tíma aðeins einu sæti frá toppsætinu en hann líkt og aðrir áttu engin svör við fugladansi Rory McIlroy í lokin.





Tiger Woods lék síðustu tvo hringina á 69 höggum en hann gerði út um alla vonir sínar um sigur þegar hann fékk skolla á bæði sextándu og sautjándu holunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×