Lögreglan á Suðurnesjum þurfti um síðastliðna helgi að hafa afskipti af erlendum ferðamönnum sem höfðu stöðvað bifreiðar sínar á Grindavíkurvegi til að dást að norðurljósum, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Þegar lögreglumenn bar að hafði mörgum bifreiðum verið lagt úti í vegkant og voru þær ljóslausar og sumar hverjar mannlausar.
„Lögreglumenn bentu ferðamönnunum góðfúslega á að þessi umferðarhegðun væri ekki í boði á vegum hér á landi. Jafnframt að þeir gætu lagt bifreiðum sínum á útsýnissvæði þar skammt frá og gætu þeir nýtt sér slík stæði á ferðum sínum um landið,“ segir í tilkynningu.
Fréttir af skipulögðum Norðuljósaferðum fyrir erlenda ferðamenn hafa ratað í fréttir undanfarna daga. Um helgina sagði leiðsögumaður til að mynda hættulegar aðstæður geta skapast í slíkum ferðum þar sem tugum rúta er lagt á litlum svæðum sem ekki eru skipulögð í þessum tilgangi. Hann taldi nauðsynlegt að huga að uppbyggingu á stæðum og útskotum á vinsælum stöðum.
Þá er þetta enn fremur ekki í fyrsta skipti sem lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að hafa afskipti af ferðamönnum sem huga ekki að umferðaröryggi þegar þeim er starsýnt á norðurljósin. Í febrúar í fyrra voru tvær bifreiðar stöðvaðar á Suðurnesjum vegna rásandi aksturslags og reyndist þar um að ræða ferðamenn sem gátu ekki haft augun af norðurljósum.
