Innlent

Sýknaðir af því að velta kyrrstæðum bíl í „múgæsingu“ eftir sigur Íslands á Englandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil gleði braust út á Selfossi eftir sigur Íslands á Englandi á EM 2016.
Mikil gleði braust út á Selfossi eftir sigur Íslands á Englandi á EM 2016. Vísir/Ernir
Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað tvo karlmenn af því að stofnað lífi og heilsu ökumanns og farþega í hættu með því að hafa velt kyrrstæðum bíl á hliðina að kvöldi mánudagsins 27. júní 2016. Atvikið átti sér stað fyrir utan Kaffi Selfoss á Selfossi í fagnaðarlátum eftir frækinn sigur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Englandi á EM í Frakklandi.

Í skýrslu lögreglu segir að hún hafi verið kölluð út vegna slagsmála við Kaffi Selfoss, jafnframt var tilkynnt að búið væri að velta þar bíl á hliðina. Við þetta slösuðust ökumaður og farþegi bílsins.

Tveir menn voru ákærðir fyrir að hafa velt bifreiðinni. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði annar maðurinn að „þarna hafi verið múgæsing og þetta hafi verið mjög furðuleg lífsreynsla“.

Við aðalmeðferð sagðist annar sakborningurninn hafa verið að horfa á landsleik í knattspyrnu og í kringum það hafi verið mikil gleði. Eftir leik gekk hann út af Hótel Selfossi ásamt hópi fólks. Var hann þar með bróður ökumanns bílsins sem fór á hliðina.

Sagði hann að bróðirinn hafi ætlað sér að gera grín „í systur sinni sem væri inni í bifreiðinni“ með því að taka undir bílinn á annarri hliðinni og reyna að lyfta honum. Mikið hafi verið hlegið en þegar fleira fólk bættist í hópinn og hjól bílsins hafi farið að lyftast sagðist annar sakborningurinn hafa dregið sig í hlé. Sagðist hann ekki hafa tekið þátt í að velta bílnum, enda væri það honum illmögulegt eftir vinnuslys fyrir nokkrum árum.

Ósannað að þeir hafi velt bílnum

Hinn sakborningurinn bar því við að enginn ásetningur hafi verið að skemma bílinn eða valda líkamstjóni. Þegar hann og bróðir ökumannsins hafi orðið þess áskynja að bíllinn gæti farið á hliðina hafi þeir farið að toga á móti, til þess að koma bílnum aftur niður.

Fleiri voru hins vegar að ýta á móti og að lokum kom ónafngreindur einstaklingur sem náði góðu taki og velti bílnum endanlega.

Ökumaður og farþegi bílsins gátu hvorugt sagt til um það hvort að hinir ákærðu hefðu átt þátt í því að velta bílnum, sem og önnur vitni í málinu.

Var niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands að það væri ósannað að hinir ákærðu hafi haft ásetning til að velta bílnum á hliðina og jafnframt að þeir hafi átt þátt í því að hún valt á hliðina. Þá væri einnig ósannað með öllu að ákærðu hafi haft ásetning til að stofna lífi eða heilsu C og D í augljósan háska af gáska og á ófyrirleitinn hátt.

Voru þeir því sýknaðir af ákæru um að hafa stofnað lífi og heilsu ökumannsins í háska með því að hafa velt bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×