Sænska úrvalsdeildin í fótbolta hófst um helgina en fjölmargir Íslendingar leika í Allsvenskan í ár. Fimm þeirra luku leik nú rétt í þessu þó ekki hafi allir komið við sögu.
Jón Guðni Fjóluson og Guðmundur Þórarinsson voru í byrjunarliði Norrköping og léku allan leikinn í 2-1 sigri á Brommapojkarna. Arnór Sigurðsson og Alfons Sampsted hófu hins vegar leik á varamannabekk Norrköping en sá fyrrnefndi kom inná fyrir Jordan Larsson á 74.mínútu í stöðunni 1-1.
Arnór hafði aðeins verið inn á vellinum í tvær mínútur þegar brotið var á honum og vítaspyrna dæmd. Úr vítaspyrnunni skoraði Kalle Holmberg og tryggði Norrköping sigur.
Alfons sat allan tímann á bekknum.
Á sama tíma vann AIK 2-0 sigur á Dalkurd. Haukur Heiðar Hauksson er á mála hjá AIK en hann sat allan tímann á varamannabekknum.
Íslendingaliðin í Svíþjóð byrja vel - Arnór Sig inn af bekknum og fiskaði víti
Arnar Geir Halldórsson skrifar
