Kaffihúsakeðjan Starbucks í Bandaríkjunum hefur ákveðið að loka 8.000 kaffihúsum sínum seinnipart dags þann 29. maí til þess að þjálfa 175.000 starfsmenn sína í því hvernig maður á koma fram við fólk af mismunandi kynþáttum. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir kynþáttamismunun á kaffihúsum keðjunnar.
Tilkynning þessi kemur í kjölfar þess að tveir þeldökkir karlmenn voru handteknir á Starbucks kaffihúsi í Fíladelfíu í síðustu viku. Mennirnir voru að bíða eftir vini sínum en starfsmenn kaffihússins hringdu á lögreglu til þess að láta vísa þeim út af staðnum.
Forstjóri kaffihúsakeðjunnar hefur neyðst til að biðja mennina afsökunar á þessari uppákomu.
