Innlent

Varaþingmaður segist hafa hagað sér skammarlega á Hótel Sögu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur S. Sævarsson segist þegar hafa hafið meðferð vegna áfengisvandamáls síns.
Guðmundur S. Sævarsson segist þegar hafa hafið meðferð vegna áfengisvandamáls síns.
Guðmundur Sævar Sævarsson, hjúkrunardeildarstjóri og varaþingmaður Flokks fólksins, segist hafa drukkið úr hófi og hagað sér skammarlega í þingveislu á Hótel Sögu á föstudagskvöldið. Fréttablaðið greindi frá því í hádeginu að Guðmundur hefði áreitt konur í veislusalnum með óviðeigandi snertingum þar til fólk hafi fengið nóg. Starfsmaður hótelsins hafi verið kallaður til og vísað honum á dyr.

Guðmundur segist í samtali við Vísi hafa beðið tiltekna aðila afsökunar á hegðun sinni. Á sama tíma hafi hann gert þeim ljóst að hann ætti við áfengisvandamál að stríða. Hann myndi leita sér aðstoðar strax, sem hann hafi þegar byrjað að gera. Viðkomandi aðilar hafi þegið afsökunarbeiðni sína sem honum þótti innilega vænt um.

Í áætlun Alþingis um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi, frá því í júní í fyrra, segir að allir starfsmenn eigi rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. Þá segir að á skrifstofu Alþingis verði einelti, kynferðisleg og kyndbundin áreitni eða ofbeldi ekki látið viðgangast.

Guðmundur segir lítið annað um málið að segja en hann hafi þegar leitað sér aðstoðar sem fyrr segir.

Hvorki náðist í Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, né þingflokksformanninn Ólaf Ísleifsson við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×