Fótbolti

Buffon hættir hjá Juve en leggur ekki skóna á hilluna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
17 ára ferli Buffon hjá Juventus lýkur um næstu helgi.
17 ára ferli Buffon hjá Juventus lýkur um næstu helgi. vísir/getty
Gianluigi Buffon staðfesti á blaðamannafundi nú áðan að leikur Juventus gegn Verona um næstu helgi yrði hans síðasti með liðinu. Ekki er víst að hanskarnir séu samt farnir upp í hillu.

„Þetta eru endalok yndislegrar ferðar sem ég hef verið svo lánsamur að njóta með fólki sem þykir vænt um mig. Ég gerði alltaf mitt besta fyrir félagið,“ sagði hinn fertugi Buffon á blaðamannafundinum.

„Ég óttaðist alltaf að enda ferilinn með Juve sem leikmaður sem félagið varð að sætta sig við. Einhver sem væri orðinn of gamall og búinn að missa það. Ég er afar stoltur af því að hafa enn spilað vel fyrir Juventus eftir að ég varð fertugur og ég get labbað á brott og borið höfuðið hátt.“

Markvörðurinn ætlar að halda þeim möguleika að spila áfram opnum aðeins lengur og ljóst að mörg félög munu bera víurnar í hann á næstu dögum.

Buffon hefur verið hjá Juventus í sautján ár en hann lék með Parma í sex ár þar á undan. Hann náði að spila 168 leiki fyrir Parma og mun spila leik númer 509 með Juve um næstu helgi.

Hann er langleikjahæsti landsliðsmaður Ítalíu frá upphafi með 176 landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×