Körfubolti

Gordon tryggði Houston sigurinn og forystuna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gordon í baráttunni við Curry í nótt
Gordon í baráttunni við Curry í nótt vísir/getty
Houston Rockets komst í forystu gegn Golden State Warriors í úrslitum vesturdeildar NBA deildarinnar í nót. Houston getur slegið ríkjandi meistara úr keppni með sigri í Oakland aðfaranótt sunnudags.

Eric Gordon kom af bekknum í nótt og setti samtals 24 stig en mikilvægast af öllu var að hann stal boltanum af Warriors í lokasókn þeirra og tryggði Houston 98-94 sigur. 20 stiga maðurinn og leiðtoginn Chris Paul meiddist aftan í læri á síðustu mínutu leiksins og gæti misst af sjötta leik liðanna sem gæti reynst Houston dýrt.

Ef Rockets nær í sigur um helgina slá þeir ekki aðeins út ríkjandi meistara heldur verður það einnig í fyrsta skipti síðan árið 1995 sem Houston kemst í sjálft úrslitaeinvígið.





Kevin Durant setti 29 stig fyrir meistarana og Stephen Curry skoraði 22.

„Við höfum ekki verið í þessari stöðu áður, svo þetta er kafli sem við þurfum að átta okkur á til þess að klára söguna,“ sagði Curry en síðustu þrjú ár hefur Golden State farið í úrslitin.

Meistararnir byrjuðu leikinn ekki vel og voru undir allan fyrsta fjórðunginn. Það var ekki fyrr en á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks að Draymond Green jafnaði metin fyrir Golden State af vítalínunni, staðan 45-45 í hálfleik.

Þeir komust yfir í upphafi þriðja leikhluta en það entist ekki lengi. Liðin skiptust á forystunni út leikhlutann og var leikurinn mjög spennandi allan seinni hálfleikinn. Green átti þriggja stiga körfu þegar rúm mínúta var eftir á klukkunni sem minnkaði muninn í eitt stig. James Harden hitti ekki úr þriggja stiga skoti sínu hinu megin, en hann hitti ekki einn þrist úr 12 tilraunum í nótt.

Green missti stjórn á boltanum og Gordon náði að stela loka sókninni, setti niður tvö vítaskot og tryggði fjögurra stiga sigur Houston.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×