Erlent

Kim Kardashian og Trump ræða fangelsismál

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Kardashian West á leið í Hvíta húsið.
Kim Kardashian West á leið í Hvíta húsið. Vísir/AP
Raunveruleikasjónvarpsstjarnan Kim Kardashian West er nú stödd í Hvíta húsinu þar sem hún mun ræða við fyrrverandi kollega sinn, Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um mögulegar umbætur í fangelsismálum. Jared Kushner, tengdasonur Trump, verður einnig á fundinum ásamt þeim Donald McGahn, lögmanni Hvíta hússins, og Shawn Chapman Holley, lögmanni Kardashian.

Á undanförnum mánuðum hefur Kardashian vakið athygli á málum tveggja dæmdra kvenna og kallað eftir breytingum á dómsmálakerfi Bandaríkjanna.

Konurnar tvær eru, samkvæmt Washington Post, þær Alice Marie Johnson og Cyntoia Brown. Johnson er 62 ára gömul kona sem var dæmd í lífstíðarfangelsi árið 1996. Það var fyrsti dómur hennar og var hún dæmd fyrir ofbeldislausan fíkniefnaglæp. Brown er þrítug og var hún dæmd í lífstíðarfangelsi árið 2004 fyrir að myrða mann þegar hún var sextán ára gömul. Því hefur þó verið haldið fram að hún hafi verið fórnarlamb mansals.

Meðal annars hefur Kardashian rætt mál kvennanna við Kushner, sem er með umbætur á dómsmálakerfi Bandaríkjanna í sínum herðum, auk málefna Mið-Austurlanda, málefni uppgjafahermanna, samskipti Bandaríkjanna og Kína og ópíumefnavanda Bandaríkjanna.

Kusnher sagði fyrr í mánuðinum að stærsta verkefni ríkisstjórnar Trump væri að skilgreina hver tilgangur fangelsa væri.

„Er tilgangurinn að refsa, er tilgangurinn að geyma eða er tilgangurinn að betrumbæta,“ sagði Kushner.

Meðal þess sem Kardashian og Kushner hafa rætt er hvort að Trump vilji mögulega náða Johnson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×