Körfubolti

LeBron: Það vill enginn fá heimboð frá Trump

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn Cleveland og Golden State vilja ekki sjá Donald Trump.
Leikmenn Cleveland og Golden State vilja ekki sjá Donald Trump. vísir/getty
Stærstu körfuboltastjörnur Bandaríkjanna eru sammála um að það komi ekki til greina hjá þeim að heimsækja Donald Trump Bandaríkjaforseta ef boðið kemur frá forsetanum.

Það er löng hefð fyrir því að meistaraliðin í stærstu íþróttum Bandaríkjanna fái boð í Hvíta húsið en það hefur ekki gengið sem skildi síðan Trump tók við.

Meistarar Golden State Warriors í NBA-deildinni fóru ekki til Trump og búið er að aflýsa heimsókn NFL-meistara Philadelphia Eagles þar sem fjöldi leikmanna hafði ekki áhuga á að heimsækja Trump. Sá fjöldi ku hreinlega hafa verið innan við tíu manns.

LeBron James, stjarna Cleveland Cavaliers, tjáði sig um málið en hann er að berjast um NBA-meistaratitilinn þessa dagana.

„Það skiptir engu máli hvort liðið vinnur titilinn. Það vill enginn fá heimboð frá Trump hvort eð er. Hvorki Cleveland né Golden State munu heimsækja forsetann,“ sagði LeBron við fjölmiðla í gær.

„Á meðan Trump er forseti verður þetta vandamál. Við teljum forsetann ekki standa fyrir réttu málefnunum og að hann sé að vinna fyrir fólkið. Það er ekkert tekið af meistaraliðunum þó svo þau fari ekki í Hvíta húsið. Þar eru allir meistarar fyrir lífstíð. Það er miklu merkilegra en að fara í Hvíta húsið. Sérstaklega á meðan hann er þar.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×